Lögbirtingurinn og Rauða Kross maðurinn

 Axel Arnar Nikulásson er fallinn frá aðeins 59 ára. Hann var einn af þeim sem ég leit alltaf upp til. Það var pínu sárt að sjá hann fara yfir í KR á sínum tíma, en maður dáðist alltaf að keppniskapinu hans. Ekki má gleyma því að hann var jú með að tryggja fyrsta titil Keflavíkur 1989. Akkúrat í sama mánuði og bjórinn var leyfður.

Axel ólst upp í Smáratúninu, næsta gata fyrir neðan Hátúnið. Bræður mínir voru á hans reki og þekkja hann því betur þannig. Ég kynnist honum í raun fyrst þegar ég er kominn í Fjölbraut. Maður vissi jú alveg hver hann var.

Hann kenndi mér tvo söguáfánga í Fjölbraut og gerði það vel. Hann er líklega sá fyrsti sem kenndi mér almennilega að skrifa ritgerð. Að hafa eitthvað markmið með smíðinni og ekki bara "hrauna úr heilanum" og setja punkt. 

Steini vinur var líka með í amk öðrum söguáfanganum og þar komum við að titli þessa bloggs. Einhvern tímann hafði ég gleymt að lesa fyrir tímann og Axel spurði mig af hverju í ósköpunum ég hefði ekki lesið heima. Ég í fáti mínu og trúðsskap sagðist hafa verið á fundi hjá Rauða Krossinum. Síðan þá var ég alltaf kallaður Rauða Kross maðurinn og næstum aldrei mínu eigin nafni. 

Ég og Steini, vorum einn föstudagsmorgun ekki að nenna að vera í skólanum. Það var eitthvað í bænum sem togaði. Ég var í hinum hópnum í sögu, svo ég var búinn með þann tíma vikunnar og Steini átti svo að mæta á þessum föstudegi. Tíminn átti að fjalla um meðferð barna og lagabreytingar til verndar börnum. Anyway, Steini ákvað að skrópa, en fann grein úr Lögbirtingarblaðinu varðand meðferð barna, tók afrit og gaf Axel og við brunuðum í Bæinn. Steini fékk ekki fjarvist að mig minnir og ég held að ég sé að muna söguna rétt, en var svo kallaður Lögbirtingurinn eftir þetta. :)

Eins og fleiri hafa sagt að þá var alltaf eins og Axel vissi nokkurn veginn hvað maður var að brasa þó að maður hitti hann ekki oft. Og hann virkilega gaf manni fulla athygli þegar maður hitti hann.

Seinustu árin hafa tengslin aðallega verið stutt Facebook skilaboð.

Blessuð sé minning Axels.



Ummæli

Helgi sagði…
Kudos fyrir Rauða Kross söguna. Mjög góð afsökun.
Helgi sagði…
Sérlega gaman að fylgjast með þér, Addi. Þú ert svo duglegur að skrifa.
Helgi sagði…
Samúðarkveðja.

Vinsælar færslur